<$BlogRSDUrl$> Teljari

föstudagur, júní 25, 2004

Góðir Íslendingar, ágætu bræður í Kristi og friði!

Fólkið velur forsetann!

Valið um hver á að gegna embætti forseta Íslands hefur aldrei skipt jafn miklu máli og nú. Skálmöld og skeggöld geisar í heimi hér og því þarf sterkan mann til þess að leiða þjóðina á ögurstundu.

Ástþór Magnússon hefur hafnað hefbundnum flokkadráttum og þeirri helgislepju sem leikur um embætti forseta Íslands. Hann hefur eitt markmið og það er friður-alheimsfriður.

Ástþór Magnússon hefur gefið það út að hann muni nýta embætti forseta Íslands til góðra og göfugra verka, hljóti hann brautargengi. Hann mun leggjast gegn hvers konar stríðs-og vígvéla rekstri og veita ráðamönnum í stríðshug, hérlendis sem erlendis verðuga áminningu. Hann mun sameina þjóðina og stuðla að friði.

Ástþór Magnússon er eini frambjóðandinn sem er með göfuga hugsjón í þessari kosningabaráttu. Ástþór vill gera sitt til þess að stuðla að friði í heiminum, bræðrakærleik, skilningi og ást í því fjölmenningarsamfélagi sem heimurinn er. Hann vill fá friðargæslu inn í landið og að Ísland fái status eins og Svíþjóð og Noregur a la Trygve Lie og Folke Bernadotte, Raoul Wallenberg og Dag Hammarskjöld.

Það er göfugt. Fólkið velur forsetann, gegn flokksræðinu og því eigum við að kjósa Ástþór Magnússon, hann er maður friðarins og fólksins.

Hver vill forseta sem situr og rær á friðarstólnum milli þess sem hann keyrir til Reykjavíkur til þess að borða eitthvað smálegt og hlýða á grútleiðinlega ómerkilega fyrirlestra eða opna álíka sýningar.

Hver vill forseta sem er eins konar sölumaður sem agiterar fyrir íslenskum vörum? Slíkt er óviðing við embættið og hneyksli. Ég sé í anda Harald Noregskonung agitera fyrir Knorr súpum og Lopakexi í opinberum heimsóknum. Sveiattan.

Nei, kominn er tími til þess að kjósa alvöru forseta og forseta með hugsjón. Ekki gróðursetjandi, silfurpantandi, skálandi fílabeinsturna eins og þjóðin hefur verið plötuð til þess að velja sl. 60 ár.

Þess vegna styð ég, þess vegna styður þjóðinm, þess vegna styður heimurinn allur Ástþór Wiium Magnússon og hina glæsilegu frú Nataliu til embættis forseta Íslands. Megi ferill þeirra verða sem glæstastur í eilífri baráttu þeirra fyrir friði um vora tíma.


( Ávarp sem ég flutti á stuðningsmannafundi Ástþórs Magnússonar í byrjun júní)
|

mánudagur, júní 07, 2004

Um málskotsrétt forseta!

Svo það sé ljóst í sambandi við fyrri færslu mína þá er enginn raunverulegur ágreiningur milli allra fræðimanna um hvort forseti Íslands hafi formlega heimild til þess að synja lögum staðfestingar.

Ég er, í sannleika sagt, orðinn frekar þreyttur á að heyra í ákveðnum stjórnmálamönnum-góðum og gegnum stjórnmálamönnum-halda því fram að vafi leiki á því hvort 26. gr. veiti forseta málskotsrétt. Og sjá síðan fylgispaka meðreiðarsveina lepja órökstuddar fullyrðingar upp og básúna þeim sem fullgildum staðreyndum og óumbreytanlegum reglum. Já eða jafnvel tala um að skýra þurfi regluna til þess að koma í veg fyrir túlkunarvandamál! Túlkunarvandamál.

Þór Vilhjálmsson og Þórður Bogason teljast seint til mikils meirihluta fræðimanna eða þess hluta sem rétt hefur fyrir sér. Greinar þeirra virðast hafa það að markmiði að breyta réttarástandi með rökum gegn eðli og áhrifum reglunnar í staðinn fyrir að hnekkja því að reglan sé formleg heimild til handa forseta. Í lögfræði heitir þetta að skilja ekki á milli þess sem nefnt hefur verið æskileg regla og gildandi regla.

Ef menn vilja breytingu þá breyta menn formlega. Aðferðin á ekki að vera sú að menn rangtúlki stjórnarskrána og reyni að fá almenning til þess að kaupa köttinn-eða svínið!- í sekknum.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?